Máltækni MSc

Með máltækni er þróaður búnaður sem getur unnið með og skilið náttúruleg tungumál og stuðlað að notkun þeirra í samskiptum manns og tölvu. Hverjir kannast ekki við tæki eða hugbúnað frá Apple, Amazon, Facebook, Google og Microsoft sem hægt er að stýra með tali eða texta?

Spennandi störf á alþjóðlegum vettvangi

Að námi loknu ættu nemendur að geta starfað við hugbúnaðarþróun í máltækni eða á sviðum þar sem vélrænu námi er beitt.

Jafnframt ætti námið að skapa grundvöll fyrir störfum á alþjóðlegum vettvangi því eftirspurn eftir starfskröftum með þessa þekkingu er alltaf að aukast. Nægir hér að nefna að tæki eða hugbúnaður, sem stórfyrirtæki eins og Apple, Amazon, Facebook, Google og Microsoft þróa, krefjast þekkingar á máltækni.

MSc-gráða ef námið er klárað í HR

Nemandi sem skráður er í HR útskrifast með MSc-gráðu í máltækni en nemandi sem skráður er í HÍ útskrifast með MA-gráðu í máltækni. Sérstakar námsreglur gilda um meistaranámið í hvorum skóla fyrir sig og skulu nemendur lúta námsreglum heimaskóla síns.

Hægt að stunda doktorsnám

Markmið með náminu er tvíþætt: annars vegar að útskrifa nemendur með þekkingu til að stýra verkefnum og útfæra lausnir á sviði máltækni; hins vegar að undirbúa nemendur undir doktorsnám á sviðinu.

Skipulag námsins í HR

Um er að ræða tveggja ára, þverfaglegt, 120 eininga nám. Einingarnar skiptast í 44-78 einingar úr námskeiðum á meistarastigi (kennd í HR og HÍ), 0-30 einingar úr grunnnámskeiðum í tölvunarfræði, 0-10 einingar úr grunnnámskeiðum í málfræði (kennd í HÍ) og 30-60 einingar í meistaraprófsverkefni/ritgerð. Samsetning eininga er því sveigjanleg og fer eftir bakgrunni viðkomandi nemanda.

Nemendur með BA-próf í málvísindum og tungumálum þurfa að taka 30 einingar í grunnnámskeiðum í tölvunarfræði. Þessi námskeið eru metin sem hluti meistaranámsins. Nemendur með aðra undirstöðu gætu þurft að taka grunnnámskeið í bæði málfræði og tölvunarfræði.